Sumarfrí eða Streitufrí?

Nú þegar sólin er farin að láta sjá sig og vor í lofti þá finnur maður að það er komin sumarhugur í fólk. Margir eru að velta fyrir sér hvað þeir ætla að gera í sumarfríinu sínu og aðrir eru með það fullbókað nú þegar. Flestir fyllast tilhlökkunar þegar þeir hugsa til sumarfrísins með fjölskyldunni. Það eru líka einstaklingar sem hafa áhyggjur og finna jafnvel til kvíða vegna komandi sumars. Þeim finnst þeir hafi ekki nægjanleg plön eða einhver óvissa með sumarið. Það er eðlilegt að finna bæði fyrir tilhlökkun og jafnvel smá spennu ef fólk er mögulega ekki búið að fylla í dagskrána eða finnst þeir ekki vera með fríið skipulagt. 

Hins vegar eiga einstaklingar ekki að vera með streitueinkenni varðandi sumarfríið sitt. Hugurinn okkar á ríkan þátt í því að vera að búa til neikvæðar hugsanir og óraunhæfar væntingar um hvernig sumarfríið eigi að vera. Til okkar leita einstaklingar sem finna oft fyrir spennu, kvíða og jafnvel mikillar streitu vegna komandi sumars og finnst sumarfrí oft vera mjög flókið þar sem það krefst mikillar samveru með fjölskyldunni. Krafan um streitulaust líf hefur aukist mikið í samfélaginu en engin má vera að því að minnka álag og stress. Þetta er ákveðið áhyggjuefni sem við stöndum frammi fyrir í nútímasamfélagi. Við eigum að hafa tíma fyrir fjölskylduna, vinina, áhugamál barnanna, heimilið á að vera fullkomið, áhugamál okkar og hamingja á að endurspeglast í þessum þáttum.  En í þessu öllu gleymum við að staldra við og spyrja okkur hvað gerir okkur sjálf hamingjusöm? Ásamt því að muna að við berum ábyrgð á okkar eigin hamingju. Það er eins og við séum hætt að fara í sumarfrí fyrir okkur sjálf heldur er þetta flókið samspil milli þess að standast kröfur um hið fullkomna frí og samverustundir með fjölskyldu sem getur oft verið býsna krefjandi verkefni.  

Þegar við erum í fríi þá erum við jafnvel farin að skipuleggja næsta frí og hvað ætlum við að gera þá. Fólk fyllist kvíða við það að hafa ekki alltaf allt á fullu og býr sér ekki til aðstæður til þess að geta staldrað við og takast á við sínar eigin hugsanir þegar hugurinn er vanur að vera alltaf á ferð og flugi.  Talað er um H-in fjögur Hollusta, Hreyfing, Hvíld og Hugarfar ef við náum að hafa þessa hluti í jafnvægi þá líður okkur mun betur og við finnum að við erum sáttari með okkar ákvarðanir og streita verður minni. Sú ákvörðun sem við tökum um okkar sumarfrí þarf að vera byggð á okkar löngunum og þörfum. 

Það er líka allt í lagi að sumarfrí einkennist að því að taka hvern dag fyrir sig hvað eigi að gera eða kannski bara vera í stað þess að vera sífellt að gera. Okkar reynsla er sú að einstaklingar sem eru sjálfmeðvitaðir um sína líðan og lifa fyrir eigin langanir eru þeir einstaklingar sem eru ánægðari með lífið.

 Reynum að hafa hlutina einfalda verum ekki allt of upptekin af því hvað aðrir ætla að gera í sínu sumarfríi heldur því sem hentar okkar fjölskyldu. Það er besta ráðið sem við gefum einstaklingum sem eru týndir í hugsunum sínum um hið fullkomna frí sem aldrei verður.  Streitulaust líf er ekki eitthvað sem við getum keypt út í búð heldur er það ferðalag með allskonar áfangastöðum sem móta hugarfar okkar. Við óskum ykkur gleðilegs sumars. 

 

Ragnheiður Guðfinna Guðnadóttir Vinnusálfræðingur og Elín Kristín Guðmundsdóttir Mannauðsráðgjafi starfa hjá Hugarheim sem er fyrirtæki sem sérhæfir sig í ráðgjöf til einstaklinga og fyrirtækja um sálfélagslega vinnuvernd, forvarnir og fræðslu.